Seint eldist Young

Angus Young, hið gallharða stafnlíkneski AC/DC allar götur frá 1973, …
Angus Young, hið gallharða stafnlíkneski AC/DC allar götur frá 1973, ber þess fá merki að vera orðinn 69 ára gamall þar sem hann fer liprum fingrum um strengi á sviðinu í Amsterdam í sínum sígilda klæðnaði, einkennisklæðum grunnskóla í Ástralíu og á Bretlandseyjum, sem hann sagði í viðtali árið 1990 að hann klæddist til að sýna andúð sína á námsárum sínum. Ljósmynd/Kristján Ásvaldsson

„Ég hef verið að flakka svolítið um og kíkja á tónleika eftir langt hlé, maður fékk allt í einu löngunina til að fara aftur, kannski það sé einhver miðaldrakrísa,“ segir Kristján Ásvaldsson í samtali við mbl.is, ef til vill betur þekktur meðal íslenskra þungarokkara níunda áratugarins sem Stjúni, trommuleikari garðbæsku þungarokksveitarinnar Bootlegs sem vakti nokkra athygli er hún reis eins og málmi klædd hamraborg upp úr íslensku gleðipoppi ársins 1986.

Kristján fæst töluvert við þá iðju að sækja þungarokkstónleika víða um heim og mynda af listfengi þær sveitir er þar stíga á svið.

Hann veitti mbl.is góðfúslegt leyfi sitt til að birta myndir af tónleikum hinnar rúmlega hálfrar aldar gömlu áströlsku þungarokksveitar AC/DC, sem stofnuð var í Sydney árið 1973, en sveitin kom fram á miðvikudaginn á Johan Cruijff-leikvanginum í Amsterdam í Hollandi á tónleikaferðalagi sínu AC/DC Power Up Tour 2024.

AC/DC á sviðinu í Amsterdam á miðvikudaginn. Kristján var spurður …
AC/DC á sviðinu í Amsterdam á miðvikudaginn. Kristján var spurður hvort hann nýtti aðdráttarlinsu við myndatökur sínar og stóð ekki á svarinu: „Nei nei, ég er bara í pyttinum,“ og þar vísað til hins alræmda svæðis „mosh pit“ framan við svið þungarokkstónleika þar sem ólmustu synir og dætur rokksins stíga trylltan dans. Banaslys hafa orðið í pyttinum en Kristján tekur myndir þaðan eins og að drekka vatn. Ljósmynd/Kristján Ásvaldsson

Heilt yfir frábærir tónleikar

Ljósmynd Kristjáns af gráfextum Angus Young, gítarleikaranum og orkuboltanum sem margir myndu freistast til að kalla stafnlíkneski sveitarinnar, frekar en hinn hrokkinhærða Brian Johnson, vakti athygli blaðamanns sem kynntist sveitinni á níunda áratugnum þegar liðsmenn hennar voru rétt að síga á fertugsaldurinn – ungir menn í blóma lífsins.

„Ég hef séð þá tvisvar áður,“ segir Kristján af tónleikaferðum sínum, „á Monsters of Rock á Englandi árið 1991 og í St. Louis í Bandaríkjunum 1996.“ Kristján lætur vel af þessari langþekktustu þungarokksveit Ástralíu sem frá fyrsta degi stimplaði sig inn með auðþekktum gítarhljómi og söng sem varla nokkurt mannsbarn villist á eftir að hafa einu sinni lagt við eyra.

„Heilt yfir voru þetta frábærir tónleikar, þeir geta þetta alveg enn og þurfa ekki hjálp „backtracks“ [upptöku sem leikin er undir tónlistarmönnum til fulltingis á tónleikum] eða aukahljóðfæraleikara,“ heldur Kristján áfram.

Bróðirinn lést úr heilabilun

Unglömbin og nýliðarnir í sveitinni, þeir Matt Laug trommuleikari og Chris Chaney bassaleikari, stóðu sig að hans mati með prýði auk þess sem gamli trommarinn úr Garðabænum ber Stevie Young vel söguna, þriðja gítarleikaranum og bróðurnum, en Malcolm Mitchell Young, stofnandi AC/DC ásamt ærslabelgnum Angus, bróður sínum, lést úr heilabilun í nóvember 2017, aðeins 64 ára gamall.

Ástralíusveitin heimskunna árið 1979, fyrsta gráa hárið langt undan og …
Ástralíusveitin heimskunna árið 1979, fyrsta gráa hárið langt undan og Angus Young auðþekktur á fatnaði sínum til rúmrar hálfrar aldar. Frá vinstri: Malcolm Young heitinn, Bon Scott, þáverandi söngvari, Angus Young, Cliff Williams og Phil Rudd, trommarinn sem komst á dögunum í heimsfréttirnar fyrir fíkniefnasölu og líflátshótanir. Velski trommarinn Chris Slade, sem margir muna eftir úr Thunderstruck-myndbandinu frá 1990, leysti Rudd þá af á tónleikum, meðal annars á Valle Hovin í Ósló í Noregi í júlí 2015 þar sem sá, sem hér skrifar, var viðstaddur. Ljósmynd/New Yorker/Fin Costello

„Stevie þurfti aðeins að hafa fyrir hlutunum en tókst prýðisvel að hamra gítarinn,“ segir Stjúni, „vel mátti sjá að hlutverk hans var stórt því Angus var meira svona uppfylling í ryþma [hryngítar] og að sjá um sólóa. Angus og Brian eru enn í fullu fjöri og sjá um stuðið, þeir geta þetta alveg enn og þótt þeir þurfi kannski meira að hafa fyrir þessu núna er það ekkert til að skammast sín fyrir,“ segir gamli rokkarinn.

Og lokadómurinn:

„AC/DC er enn „topp-show“ að sjá og ég mæli með því að fara og kíkja á þá ef tækifæri gefst. Þetta var drullugott „gigg“.“ Svo mörg voru þau orð.

Þeim, sem áhugasamir eru um fleiri myndir af tónleikum sem Kristján hefur sótt, má benda á að leita að @stjuni á Instagram og YouTube.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan