Eru gleymd orð framtíð íslenskunnar?

Jóhannes B. Sigtryggsson rannsóknardósent er áhugamaður um gleymd orð.
Jóhannes B. Sigtryggsson rannsóknardósent er áhugamaður um gleymd orð. Samsett mynd

Það hve mörg gleymd orð eru til í íslensku er vitnisburður um að tungumálið sé lifandi að sögn Jóhannesar B. Sigtryggssonar rannsóknardósents við Árnastofnun.

Slík orð geta sömuleiðis verið sóknarfæri fyrir áhugafólk um blæbrigðaríkt mál.

Jóhannes gerði gleymd orð að umræðuefni í pistli á vef Árnastofnunar á dögunum og fjallað var um málið í Morgunblaðinu síðasta laugardag.

Þar kom fram að meirihluti íslenskra orða er í raun gleymdur. Í Ritmálssafni orðabókar Háskólans má finna um 700 þúsund orð en í hefðbundnum orðabókum eru þau 60-80 þúsund.

Sum aðeins einu sinni komið fyrir

Sum orðanna í Ritmálssafninu hafa vissulega aðeins komið einu sinni fyrir á riti og oft er um að ræða svokallaðar dægursamsetningar, það eru orð sem eru búin til á staðnum.

Önnur hafa þó verið meira notuð eins og orðið bramlsmaður sem Jóhannes heldur upp á:

„Eitt af þessum orðum er bramlsmaður sem lýsir umfangsmiklum manni sem hefur mikil áhrif. Brýtur og bramlar. Ég held að það sé það orð sem lýsir best Donald Trump. Mér dettur ekki í hug neitt orð sem lýsir honum jafn vel. Brýtur og bramlar allt sem að hann kemur nálægt.“

Ef fólk er þreytt á orðinu falsfrétt er um að …
Ef fólk er þreytt á orðinu falsfrétt er um að gera að nota upplost í staðinn. AFP

Kryddar málið

Mikið er hægt að fá út úr því að skoða gömul og gleymd orð en Jóhannes segir þau einmitt geta kryddað upp á málið. 

„Þetta eru skemmtileg tilbrigði [...] fyrir þá sem vilja hafa blæbrigðaríkt mál eða krydda mál sitt,“ segir Jóhannes. 

Fyrir þá sem tilheyra þeim hópi eru hér nokkur dæmi um gleymd orð sem Jóhannes talaði um í pistli sínum:

aldarmál (hk.) óbreytanleg ákvörðun’

annkvista (so.) ‘framfleyta, framfæra’

bági (kk.) ‘andstæðingur’

bramlsmaður ‘skrumari, grobbhani’

dagþingan (kvk.) ‘samningaviðræður, fundur; samningur’

hermd (kvk.) ‘gremja, heiftrækni’

hleytismaður (kk.) ‘staðgengill’

illtyngd (kvk.) ‘baktal, illmælgi’ 

vábæli (hk.) ‘ófyrirséð ólukka’

Allt bendir til þess að Kamala Harris verði bági Donalds …
Allt bendir til þess að Kamala Harris verði bági Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningunum. Sumir segja Trump bramlsmann. AFP

Tökuorð gleymast líka

Þá tók Jóhannes sérstaklega fyrir gömul og gleymd tökuorð en þau hafa alltaf tilheyrt íslensku. Hér eru nokkur þeirra:

piktur (kk.) ‘málari’

stívarður (kk.) ‘m.a. ráðsmaður’ (e. steward)

tortís (kk.) ‘kyndill’ (e. torch)

Bláklæddur piktur málar blokk.
Bláklæddur piktur málar blokk. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Orðin sett í samhengi

Fyrir þá sem eru spenntir að tileinka sér þennan orðaforða tók Jóhannes dæmi um hvernig nota megi nokkur orðanna í setningu sem er eftirfarandi:

„Bramlsmaðurinn Trump sagði að þetta væri upplost og ymtur. Hann stankaði ekki völd til hleytismanna vegna vábælis. Illtyngd og umgröftur kávísra bága hefði engin áhrif á það. Sigurvegning sannleikans myndi sigra lygð þeirra.“

Á nútímamáli þar sem öll orð eru í manna minnum myndi setningin vera svona:

„Skrumarinn Trump sagði að þetta væri falsfrétt og orðrómur/kvittur. Hann léti ógjarna af hendi völd sín til staðgengla vegna ófyrirséðrar ólukku. Baktal og ásókn andstæðinga hefði engin áhrif á það. Sannleikurinn yfirstigi lygi þeirra.“

Að lokum er rétt að geta þess að Jóhannes hvetur áhugafólk um íslenska tungu til að heimsækja orðsifjabók Árnastofnunar sem gerð var aðgengileg á veraldarvefnum í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar