Japanska kvikmyndin Eilíf hamingja (e. Super Happy Forever) í leikstjórn japanska leikstjórans Kohei Igarashi hlaut Gullna lundann, aðalverðlaun RIFF-kvikmyndahátíðarinnar, í dag.
Myndin fjallar um Sano sem ferðast með æskuvini sínum Miyata til strandbæjarins Izu, í leit að týndum rauðum hatti. Þar sem Sano hafði fimm árum fyrr kynnst og fallið fyrir eiginkonu sinni heitinni, að því er segir um kvikmyndina í tilkynningu frá RIFF.
Dómnefnd Gullna lundans sagði myndina næma og ljóslifandi sem tekst á frumlegan hátt á við sorg, og teflir fram persónum hafi verið sönn ánægja að kynnast.
„Kvikmyndin dáleiddi okkur á ýmsum plönum, frásögnin sem leikur sér að tímanleika, fínstillt sögusviðið,“ segir í umsögn dómnefndar.
Norska heimildarmyndin Breyttur veruleiki (e. A New Kind of Wilderness) vann verðlaun í flokki Annarar framtíðar.
Brúðurin eftir Hjördísi Jóhannsdóttur var valin besta íslenska stuttmyndin.
Dómnefnd unga fólksins valdi G-21 Sena frá Gottsunda sem bestu myndina.