Stórar hindranir stóðu í veginum þegar Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður Ljósvakamiðla, ákvað ásamt SagaFilm að ráðast í það verkefni að setja upp íslenska útgáfu af The Voice. Þegar fyrst var leitast við að byrja á verkefninu, fyrir 18 mánuðum, var haldið á fund við hollenska fyrirtækið Talpa, sem á vörumerkið. Uppsett verð fyrir þáttinn þótti heldur hátt, og var verkefnið þá sett á ís. Nokkrum mánuðum síðar var gerð önnur tilraun til samninga sem gekk talsvert betur.
Verkefnið er kostnaðarsamt og því þurftu margir að koma að til að The Voice Ísland gæti orðið að veruleika. Fyrsta tilraun til að ná ná samkomulagi milli framleiðenda, auglýsenda og fleiri tókst ekki og því var verkefnið aftur sett í bið.
Það var ekki fyrr en síðasta vor að loksins komst skriður á hlutina og samningar náðust um fjármögnun verkefnisins. Þá var ekki lítið verk fyrir höndum, að finna þjálfara, keppendur, kynna og starfsfólk til að þátturinn gæti farið í loftið um haustið.
„Það var mikil tímapressa á okkur, að ætla að ná þessu öllu á svona stuttum tíma og sýningu á þáttunum um haustið. En það tókst,“ segir Pálmi.
Aðspurður af hverju honum hafi verið í mun að gera íslenska útgáfu af þessum tiltekna þætti svaraði Pálmi: „The Voice er Þátturinn, með stórum staf og greini. Þetta format, eða fyrirkomulag, er búið að slá rækilega í gegn og er í gangi í 62 löndum. Svo rækilega að forverarnir, Idol og X-Factor, eru ýmist hættir eða að hætta, í Bandaríkjunum er síðasta þáttaröð af Idol að hefja göngu sína og X-Factor hætt. Það var „no brainer“ að velja The Voice.“
Það er stórt verkefni að framleiða íslenska útgáfu af erlendri þáttaröð. Því fylgja miklar reglur um uppsetningu og framkvæmd. Svo miklar að aðili frá Talpa, sem bæði á The Voice og framleiðir bandarísku útgáfu þáttanna, sendu hóp til að fylgjast með og aðstoða við uppsetninguna. „Við hefðum í raun ekki getað verið betur sett,“ segir Pálmi, „enda einvalalið SagaFilm, sem stendur að baki þessari framleiðslu.“
Pálmi er spenntur fyrir helginni, en fyrsti þáttur The Voice Ísland fer í loftið næstkomandi föstudag. „Þetta er vissulega búið að reyna á þolrifin og þolinmæði okkar allra, en ég er sannfærður um að The Voice muni vekja mikla lukku á Íslandi.“