Sydney. AFP. | Það kann að vera að peningar kaupi ekki ást og lífsfyllingu en þeir geta vel frestað lífi og dauða. Þessu er haldið fram í nýrri rannsókn tveggja ástralskra hagfræðinga, sem könnuðu áhrif tveggja ákvarðana stjórnvalda fyrr og nú á barneignir og dauðsföll í landinu.
Í fyrsta lagi rannsökuðu þeir áhrif svokallaðs "barnabónuss" sem gekk í gildi 1. júlí 2004 og fólst í því að stjórnin greiddi 3.000 ástralska dali, eða sem svarar um 167.000 ísl. kr., með hverju nýfæddu barni.
"Við áætlum að um 700 fæðingum hafi verið frestað frá síðustu vikunni í júní 2004 til fyrstu vikunnar í júlí," sagði Andrew Leigh, hagfræðingur hjá Australia National University. "Það sem veldur okkur enn meiri vandræðum er að 300 fæðingar voru tveimur vikum á eftir áætlun."
Að sögn Leigh byggir þessi áætlun á gögnum sem hann og Joshua Gans, hagfræðingur hjá Melbourne Business School, rannsökuðu í sameiningu, en það kom þeim í opna skjöldu að það skyldu hafa verið fleiri fæðingar 1. júlí 2004 en á nokkrum öðrum degi undanfarin 30 ár.