Sérfræðingar hafa haldið því fram að þeir hafi komist að því hver sé vísindaformúlan fyrir því að taka hina fullkomnu vítaspyrnu. Í stuttu máli er hún þessi: (((X + Y + S) / 2) x ((T + I + 2B) / 4)) + (V/2) -1. Fyrir þá sem eru að klóra sér í hausnum yfir ofangreindri jöfnu má einfalda hana með því að segja að mestu máli skipti að sparkað sé af afli í boltann og honum sé vel miðað. Í rauninni er þetta ekki nýr sannleikur en þetta er þó ekki allt.
Sá sem á að taka vítaspyrnuna getur einnig aukið möguleika sína á að skora með því að eyða ekki óþarfa tíma eftir að hann hefur komið boltanum fyrir á vítapunktinum.
Þá er styttra hlaup talið betra en langt hlaup. Og þá má ekki gleyma því hvernig fætinum er hallað.
Það eru vísindamenn í John Moores háskólanum í Liverpool sem hafa sett formúluna saman.
Þeir segja að besta vítaspyrnan sem Englendingar hafa tekið frá árinu 1962 hafi verið spyrna Alans Shearers í leik enska landsliðsins gegn Argentínu árið 1998.
Stærðfræðingurinn David Lewis, sem þróaði formúluna, segir að vísindamennirnir myndu ráðleggja Englendingum að fara eftir þessum viðmiðunarreglum þeirra við æfingar.
Í ofangreindri jöfnu jafngildir V hraða (e. velocity) boltans eftir að spyrnt er í hann og T stendur fyrir tímann sem líður frá því að boltinn er settur á punktinn og þar til spyrnt er í hann.
S stendur fyrir þau skref (e. steps) sem leikmaðurinn tekur fyrir skot á meðan I stendur fyrir þann tíma sem líður frá því að sparkað sé í boltann eftir að markvörðurinn hefur ákveðið í hvort hornið hann hyggst stinga sér í.
Y stendur fyrir lóðrétta staðsetningu boltans frá jörðu, X stendur fyrir lárétta staðsetningu boltans frá miðju og B stendur fyrir það hvernig leikmaðurinn hallar knattspyrnuskónum sínum við spyrnuna.
Það var Ladbrokes veðmangarafyrirtækið sem stóð á bak við rannsóknina en þeir veðja þremur á móti einum að Englendingar falli úr heimsmeistarakeppninni eftir vítaspyrnukeppni.