Meira en helmingur íbúa í Osló lætur nágranna sína fara í taugarnar á sér, að því er ný könnun landssambands byggingarsamvinnufélaga í Noregi leiðir í ljós.
Hávær tónlist og annar hávaði frá nágrönnum er það sem mest angrar Norðmenn, en 28% sögðust ergja sig yfir honum. Rusl og óreiða er næstalgengasta umkvörtunarefnið og angrar það 16% íbúanna en 10% sögðu að matarlykt úr annarra manna húsakynnum færi í taugarnar á sér, að því er fram kemur á fréttavef Aftenposten.