Breskt par viðurkenndi í dag, að bera ábyrgð á ljósagangi sem varð til þess að hundruð manna á norðausturhluta Englands taldi að fljúgandi furðuhlutir hefðu verið á sveimi og gerði lögreglu og varnarmálaráðuneyti landsins viðvart.
Þau Paul McKinney og Emma Henfrey létu partílugtir svífa upp í himininn nýlega til að fagna því að þau keyptu nýtt hús í bænum Seaham á austurströnd Englands. Íbúar á svæðinu sáu gul og hvít ljós svífa um himininn og daginn eftir birtust myndir af fyrirbærinu í héraðsfréttablaðinu Sunderland Echo. Áhugamenn um FFH höfðu samband við lögreglu og varnarmálaráðuneyti landsins.
Hjónaleysin ætluðu fyrst að láta sem ekkert væri, en í samtali við héraðsblaðið í dag sagði McKinney, að hann hafi skipt um skoðun þegar hann heyrði fjölmiðlafréttir um að opinber rannsókn væri að hefjast á málinu.
„Það var frábær sjón að sjá þessar lugtir svífa í loftinu og hverfa og okkur datt aldrei í hug að fólk myndi halda að þetta væru geimverur," sagði hann.
Lugtirnar, sem búnar eru til úr plastpoka, koparvír og kerti, líta út eins og litlar blöðrur og hægt er að kaupa þær á netinu fyrir um 1500 krónur stykkið. Á umbúðunum segir, að lugtirnar geti komist í talsverða hæð og gætu hugsanlega litið út eins og fljúgandi furðuhlutir.
Talsmaður varnarmálaráðuneytisins sagðist afar ánægður með að búið væri að finna skýringu á þessari ráðgátu. Ráðuneytið rannsakar oft tilkynningar um fljúgandi furðuhluti til að leiða í ljós hvort lofthelgi Bretlands hafi verið rofin.