Bandaríska fréttastöðin CNN hefur beðist afsökunar á því að heyrst hafi í samtali tveggja starfsmanna stöðvarinnar á meðan stöðin sjónvarpaði í beinni útsendingu ræðu George W. Bush Bandaríkjaforseta. Samtalið, sem var á milli fréttakonunnar Kyru Phillips og annarrar konu, heyrðist glögglega á meðan Bush flutti ræðu í New Orleans þar sem hann var staddur vegna þess að ár er liðið frá því að fellibylurinn Katrín jafnaði borgina nánast við jörðu.
Svo virðist sem Phillips hafi farið á salernið og hitt þar starfssystur sína og tekið hana tali. Á meðan samtalinu stóð talaði Phillips um eiginmann sinn og hún sagði jafnframt að eiginkona bróður síns væri stjórnsöm.
CNN hefur beðið áhorfendur sína afsökunar en forsvarsmenn stöðvarinnar bera fyrir sig tæknivanda með hljóðið.
Glappaskotið átti sér stað á meðan Phillips var með hljóðnemann enn tengdan við sig á meðan gert var stutt hlé á útsendingu fréttaþáttarins Live From. Þátturinn sýndi beint frá New Orleans þar sem Bush flutti ræðu, og á sama tíma gátu áhorfendur hinsvegar hlustað á Phillips ræða um persónulega mál í eina og hálfa mínútu.
Í fyrstu heyrðist dauflega í henni en hljóðið lagaðist svo þegar á leið. Fyrst heyrðist í að því er virðist blótsyrði áður en hún fór að mæra eiginmann sinn í samtali um karlmenn.
„Já, ég er afar lánsöm hvað varðar eiginmanninn minn. Eiginmaður minn er myndarlegur og virkilega elskulegur, þú veist, ekkert sjálfumglaður [...] þú veist hvað ég meina,“ heyrðist Phillips segja við aðra konu, en ekki er vitað við hvaða konu hún var að ræða við.
„Bara virkilega ástríðufullur, góðhjartaður, frábær, alveg frábær manneskja. Og þeir eru til. Þeir eru til. Það er erfitt að finna þá, en þeir eru þarna úti.“
Stuttu síðar heyrðist hún hlæja áður en að hún fór að tala um bróður sinn.
„Ég verð að vernda hann,“ sagði hún. „Hann er giftur, á þrjú börn og konan hans er algjörlega stjórnsöm.“
Á þessum tímapunkti heyrist önnur kona biðja Phillips um að slökkva á hljóðnemanum þar sem samtalið hafi heyrst í beinni.
CNN sendi frá sér tilkynningu þar sem stöðin biðst afsökunar á þessum tæknilegu örðugleikum. Þá bað CNN einnig Hvíta húsið afsökunar á þessu.