Bandarískum barþjóni var brugðið þegar viðskiptavinur skildi eftir tíu þúsund dollara þjórfé með þeim orðum að þetta væri „ekki brandari“.
Barþjónninn, Cindy Kienow, fékk þjórféð (sem samsvarar tæpum 700.000 krónum) eftir að hafa borið viðskiptavininum málsverð sem kostaði 26 dollara.
Kienow vinnur á Applebee's Bar and Grill í Hutchinson í Kansas. Hún sagði að viðskiptavinurinn, karlmaður á fimmtugsaldri, væri fastakúnni.
Hann hefði alltaf gefið ríflegt þjórfé, en þetta væri engu líkt. „Ég varð alveg orðlaus. Hann sagði: Þú getur keypt þér eitthvað fallegt fyrir þetta, er það ekki? Ég sagði jú ég get það.“
Kienow segist hafa þjónað umræddum kúnna í þrjú ár, og hann sé afskaplega geðugur maður. „Ég vona að hann komi hingað aftur svo að ég geti þakkað honum fyrir. Ég varð eiginlega alveg orðlaus um daginn.“
Þjórféð var greitt með krítarkorti og segist eigandi Applebee´s geta fengið það staðfest á næstu dögum.