Svissneskur bílstjóri sem gripinn var á ofsahraða í Kanada um síðustu helgi bar því við að þar sem engin hætta hefði verið á að keyra á geit hefði hann talið óhætt að aka eins hratt og druslan dró.
Lögreglan í Ontario-fylki greindi frá þessu í gær. Svisslendingurinn var stöðvaður á 161 km hraða á leiðinni á milli Toronto og Montréal, en þar er hámarkshraði 100 km.
„Lögreglumaður stöðvaði ökumanninn fyrir hraðakstur á beinum kafla og ökumaðurinn sagðist hafa haldið að það væri óhætt að aka hratt þar sem litlar líkur væru á að keyra á geit,“ sagði talsmaður lögreglunnar. „Ég hef aldrei komið til Sviss, en það hlýtur að vera mikið af geitum þar.“