Sjötíu og níu ára kona var handtekin í Chicago eftir að hún gerði tilraun til bankaráns. Segir Chicago Sun-Times að hún sé að öllum líkindum elsta konan sem nokkurn tíma hafi reynt bankarán í borginni.
Konan fór „vopnuð“ leikfangabyssu inn í útibú Bank of America og byrjaði á að segja við gjaldkera að hún gæti ekki talað hátt vegna þess að hún væri nýkomin frá tannlækni.
Þegar gjaldkerinn hallaði sér nær henni dró sú gamla fram byssuna og sagði: „Láttu mig hafa 30.000 dollara. Vinur minn bíður handan við götuna. Og enga [litasprengju].“
En gjaldkerinn fór ofan í skúffu hjá sér og setti af stað aðvörunarkerfi áður en hann fór frá afgreiðsluborðinu. Ræninginn beið í nokkrar mínútur en fór svo út úr bankanum, og skildi yfirfrakkann sinn þar eftir. Bankastarfsmaður veifaði í lögregluþjón fyrir utan og handtók hann konuna.