Serbneskur maður þurfti að leita læknis eftir að hann hafði reynt að hafa mök við broddgölt samkvæmt ráðleggingum galdralæknis.
Maðurinn, sem býr í Belgrad, leitaði til galdralæknisins vegna þess að hann átti vanda til of bráðs sáðláts og fékk þetta undarlega ráð. Hann reyndi að fara eftir því en kom nokkru síðar á sjúkrahús skorinn og blóðugur og með broddgaltanálar fastar í sér.
Talsmaður sjúkrahússins segir að tekist hafi að tjasla manninum saman og hann ætti að ná sér. Þá segir talsmaðurinn að hann viti ekki annað en broddgölturinn hafi sloppið ómeiddur.