Fjórir af hverjum tíu Bretum kveðast reiðubúnir að gefa kynlíf algerlega upp á bátinn ef þeir geti þar með tryggt að þeir nái hundrað ára aldri, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar. Næstum helmingur kvenna sem þátt tók í könnuninni kvaðst tilbúinn til skírlífis til að ná háum aldri.
Frá þessu greinir breski fréttavefurinn Ananova.
En það er ýmislegt sem fólk er ekki tilbúið til að gefa fyrir háan aldur. Þannig sögðust 94% aðspurðra ekki tilbúin að fórna samneyti við vini og fjölskyldu til að verða hundrað ára, og 74% kváðust ekki reiðubúin að fórna til þess peningum.
Könnunin var unnin af Ipsos-MORI fyrir breska heilbrigðisþjónustufyrirtækið Bupa. Hún leiddi meðal annars í ljós að að meðaltali vænta Bretar þess að ná 85 ára aldri. Ungir og gamlir eru ekki sammála um hvenær fólk fari að teljast gamalt. Þeir sem eru á aldrinum 16-24 ára telja fólk verða „gamalt“ um 61 árs aldur, en þeir sem eru 75 ára og eldri telja það verða um 71 árs.