Stórverslunin Harrods í Lundúnum hefur sagt jólasveininum upp störfum vegna óviðeigandi ummæla hans við viðskiptavini. Versluninni höfðu borist kvartanir vegna framferðis Sveinka meðal annars frá fjölskyldu af asískum uppruna. Hafði hann bent fjölskyldunni á að hún ætti frekar að versla í lággjaldaverslun í stað Harrods, samkvæmt frétt Metro blaðsins. Jólasveinninn á einnig að hafa á lostafullan hátt boðið unglingsstúlku úr sömu fjölskyldu að setjast á hné sér.
Talsmaður Harrods sagði í samtali við AFP fréttastofuna að jólasveinninn hafi haft uppi óviðeigandi ummæli við viðskiptavini verslunarinnar en þau hafi ekki falið í sér kynþáttahatur.
Alls eru sex jólasveinar að störfum í jólalandi Harrods og er talið að um 76 þúsund fjölskyldur sæki það heim árlega.