Berlín. AFP. | Oft er sagt að fjarlægðir skipti litlu máli þegar ástin er annars vegar, þar finnist ávallt brú sem dugir. Það borgar sig þó að hafa landakortið til hliðsjónar þegar sú heittelskaða er annars vegar eins og hinn seinheppni, þýski tryggingasölumaður Tobias Gutt fékk að reyna á dögunum.
Þannig hugðist Gutt heimsækja unnustu sína í sólskinsborginni Sydney í Ástralíu og varð því ekki um sel þegar hann eftir langa flugferð leit snæviþakin fjöll Montana-ríkis í Bandaríkjunum.
Gutt kveikti ekki á perunni fyrr en flugfreyjan benti honum á, að hann þyrfti að fara lokahnykkinn með lítilli flugvél til að komast á áfangastað í smábænum Sidney í Montana, 4.800 manna bæ.
Gutt þykir sparsamur með endemum og þóttist hafa gert góð kaup með því að kaupa miðann á netinu. Hann komst loks til Sydney en á eftir að skipuleggja heimferðina.