Jóla- og áramótaveislu nokkurra rottna í Mønsted í Danmörku hefur nú verið slitið. Í ljós kom, að rotturnar höfðu komist inn í ostalager danska mjólkurfélagsins Arla Foods og stóðu á blístri þegar að var komið enda voru 93 tonn af osti í geymslunni.
Skive Folkeblad segir, að osturinn verði fjarlægður úr geymslunni og síðan standi til að veiða rotturnar. Heilbrigðiseftirlitsmenn munu nú meta hvað hægt sé að nýta af ostalagernum og síðan stendur til að gera hann rottuheldan.