Bandarísk samtök, sem berjast gegn óhóflegum réttarhöldum, hafa birt árlegan lista yfir undarlegustu viðvaranir, sem framleiðendur tækja eða hluta setja á vöruna í því skyni að firra sig ábyrgð á slysum eða öðrum óhöppum. Að mati samtakanna birtist fáránlegasta viðvörun síðasta árs á þvottavél, sem framleidd er fyrir myntþvottahús. Á þvottavélinni stendur: Ekki setja manneskju inn í þessa þvottavél.
Í öðru sæti var viðvörun frá vélarframleiðenda en á vélunum stóð: Aldrei nota logandi eldspýtu eða opinn eld til að kanna hvort eldsneytið sé að klárast.
Jafnar í þriðja sæti voru tilkynningar þar sem varað var við að setja vota farsíma í örbylgjuofna og við að strauja lottómiða.
Símaskrá nokkur fékk aukaverðlaun en á henni stóð: Vinsamlegast ekki nota þessa símaskrá á sama tíma og verið er að stjórna vélknúnu ökutæki.
Samtökin, sem nefnast M-Law og eru með höfuðstöðvar í Michigan, berjast fyrir því að fækka málshöfðunum í Bandaríkjunum. Samtökin fengu útvarpsstöð í Detroit til að lesa upp lista yfir þær tilkynningar sem komu til greina í samkeppninni og hlustendur greiddu síðan atkvæði.
Patti Andresen Shew, talsmaður þvottavélarframleiðandans, sem framleiddi þvottavélina með viðvöruninni góðu, segir að fyrir henni séu gildar ástæður. „Opið á þvottavélinni er einmitt í þeirri hæð, að fjögurra ára gamalt barn getur skriðið þar inn og þá tala ég sem móðir en ekki sem talsmaður fyrirtækis," hefur fréttavefur BBC eftir henni.
Shew segir að aðrir þvottavélarframleiðendur hafi fengið á sig lögsókn eftir að lítil börn skriðu inn í þvottavélar, sem voru í gangi.