Karlkyns verjandi í sakamáli hefur verið kærður fyrir að kyssa kvenkyns réttargæslumann þann 22. desember sl. Segir verjandinn að hann hafi kysst réttargæslumanninn í tilefni jólanna. Hinn meinti glæpur átti sér stað í Héraðsdómi í Waterbury í Connecticut í Bandaríkjunum.
Verjandinn, Ralph Crozier, segir kæruna þann mesta þvætting sem hann hafi séð og heyrt á lífsleiðinni. Segir hann að tug þúsundir íbúa Connecticut óski samstarfsfólki og vina gleðilegra jóla með kossi á síðasta vinnudegi fyrir jól án þess að vera kærðir fyrir.
Segir Crozier að lögregla sem rannsaki málið hafi tjáð honum að þar sem réttargæslumaðurinn hafi ekki gefið heimild fyrir kossinum fyrirfram þá sé um glæpsamlegt athæfi að ræða. Að sögn Crozier mun upptaka úr öryggismyndavél sýna að hann hafi ekki haft neitt kynferðislegt í huga þegar hann smellti kossi á réttargæslumanninn. Crozier situr ekki í gæsluvarðhaldi fyrir athæfið þar sem hann er laus gegn tryggingu.