Ungur Ástrali sem seldi allt sitt, þ.á m. erfiðleika í kjölfar sambandsslita, á eBay segist enn ekki vita nákvæmlega hvers vegna hann hafi gert þetta.
Hann heitir Nicael Holt, er 24 ára heimspekinemi og brimbrettamaður. Hann seldi nafnið sitt, símanúmerið og allar eigur sínar, þ.á m. fötin, geisladiskana, brimbrettið, fartölvuna, myndir úr æsku sinni og „ágætan lampa“ sem fyrrverandi kærasta gaf honum.
Hæsta boðið sem hann fékk var rúm hálf milljón króna, en sá sem það bauð hefur ekki verið nafngreindur. Kaupandinn fær meðal annars rétt á að eyða jólunum með foreldrum Holts.
Holt á heima í Wollongong og hefur sett upp heimasíðu þar sem hann reynir að útskýra þennan gjörning sinn og biður um framlög til líknarmála. Hann segist ekki geta útskýrt hvers vegna hann hafi selt líf sitt.
Að einhverju leyti hafi þetta stafað af því að honum hafi leiðst og verið hugfanginn af því hvað mannslíf sé og hvað geri sig að þeim sem hann sé.
Holt bætir við að sig hafi líka langað til að benda á að það sé yfirgengilegt og hrein sóun hversu mikið og hvers konar hlutir séu til sölu í heiminum.
Þegar Holt auglýsti líf sitt sagði hann að hæstbjóðandi fengi mánaðar námskeið í að vera hann - þ.á m. kennslu á brimbretti, klifri, hjólabretti og fleiru - og símaráðgjöf í tvo mánuði á eftir.
Hann lofaði einnig að kynna kaupandann fyrir öllum vinum sínum og mögulegum elskendum, þar á meðal átta manns sem hann hafi verið að daðra við.
Aftur á móti bauð hann ekki lögpersónueinkenni sín, vegabréf, veitt réttindi og væntanlegan arf til sölu.
Á vefsíðu hans hafa aðeins safnast tæpar tíu þúsund krónur til líknarmála.