Suður-kóresk kona hefur sett heimsmet í karíókísöng eftir að hafa verið búin að syngja í nærri 60 klukkustundir á Valentínusardaginn til þess að gleðja eiginmann sinn sem á við veikindi að stríða, en hún hóf sönginn á mánudag.
Kim Seok-Ok, sem er 52ja ára, hrundi niður af þreytu þegar hún hafði sungið í 59 klukkustundir og 48 mínútur á karíókíbar í Seoul.
Hún sló gamla heimsmetið sem var 59 klukkustundir og 12 mínútur, en það var Þjóðverji sem setti metið í fyrra.
Fulltrúi frá Heimsmetabók Guinness fylgdist með söngnum, en hann á hinsvegar eftir að staðfesta tímann. Hún hóf, sem fyrr segir, að þenja raddböndin á mánudaginn og í gærkvöldi var hún orðin örmagna af þreytu og fékk aðsvif.
Hún hvíldi sig í 10 mínútur eftir að hafa sungið í 50 mínútur, og henni tókst að ljúka 979 lögum af þeim 1.014 sem hún hafði í hyggju að syngja.
Kim sagði í viðtali við s-kóreska fjölmiðla að hún hafi ákveðið að reyna við heimsmetið til þess að gleðja eiginmann sinn sem hefur verið greindur með heilaæxli.