Ítalskur dómari hefur úrskurðað, að giftingarathöfn sem fór fram gegnum síma, sé lögleg. Pakistani, sem starfar á Ítalíu, getur því fengið eiginkonu sína til sín.
Málið snýst um Pakistana, sem starfar á Ítalíu. Hann vildi giftast unnustu sinni í Pakistan en óttaðist að missa vinnuna ef hann færi úr landi. Eftir að hafa ráðgast við lögreglustjóra í norður-ítalska bænum þar sem hann býr, ákvað maðurinn að giftast kærustunni gegnum síma. Ungu hjónin fengu síðan formlegt giftingarvottorð í Pakistan til staðfestingar hjónabandinu.
En þegar maðurinn vildi fá konuna til sín á Ítalíu hafnaði ítalska sendiráðið í Pakistan umsókn konunnar um landvistarleyfi og taldi giftinguna ekki löglega. Málið kom því til kasta dómstóla á Ítalíu og í réttarsalnum í Mílanó sýndi brúðguminn m.a. myndband af brúðkaupsveislunni þar sem ættingjar glöddust með brúðhjónunum - sem þó voru ekki í veislunni.
Dómarinn komst síðan að þeirri niðurstöðu, að ítölsku sendimennirnir í Pakistan hefðu brotið lög. Það sem máli skipti væri, að heimaland hjónanna hefði viðurkennt símabrúðkaupið með því að gefa út giftingarvottorðið.