Misheppnað bankarán var framið Austurríki og lögregla sat um bankann í 5 stundir og reyndi að fá ræningjann til að gefast upp. Á eftir kom í ljós, að til að stytta sér stundir svaraði ræninginn símtölum, sem bankanum bárust frá viðskiptavinum og bauð þeim lán og vildarkjör.
Lögregla segir að Gunther Baum hafi ráðist inn í Bawag bankann í miðborg Vínarborgar, veifað byssu og krafist peninga. Lögreglan var hins vegar óvenju fljót á vettvang enda er bankinn við hliðina á höfuðstöðvum sérsveita austurríska ríkislögreglustjórans.
Baum flúði upp á næstu hæð byggingarinnar, þar sem bankinn er með skrifstofur, og tók þrjá starfsmenn og viðskiptavin í gíslingu. Hann hóf síðan að svara símtölum frá viðskiptavinum og ræddi fjálglega við þá um lánamöguleika.
Eftir 5 stundir fékk Baum hins vegar nóg af þessum leik og gafst upp. Bankinn hefur síðan þurft að reyna að róa nokkra bálilla viðskiptavini, sem töldu sig hafa náð afar hagstæðum samningum um lausn á fjárhagserfiðleikum sínum.