Hollenski ofurhuginn Win Hof hyggst setja heimsmet með því að klífa Everest-tind klæddur einungis skóm, stuttbuxum, hönskum og húfu. Hof kallar sig „Iceman”, eða „Ísmanninn” og segist hafa sérstaka hæfileika til að þola kulda. Á vefsíðu sinni má sjá hann hálf-nakinn við íhugun á ís.
Ísmaðurinn hefur þegar sett níu svipuð met, m.a. með því að hlaupa hálfmaraþon berfættur í Finnlandi norðan við heimskautsbaug.
Hann ætlar þó ekki að klifra alla leið á stuttbuxunum, heldur aðeins valda kafla af leiðinni auk þess sem hann mun klæðast fötum þegar hann hvílist. Haldið verður í leiðangurinn frá Hollandi í lok apríl, en með Höf verða fjórir fjallgöngumenn til viðbótar, sem allir klæðast fötum.
Hópurinn vonast til að komast á tindinn þann 16. maí nk.