Lögreglumenn í ríkinu Gujarat, sem er í vesturhluta Indlands, munu brátt fá nýjan lögreglubúning sem hefur verið gegndreyptur með blóma- og sítrusilmi, en markmiðið með þessu er að bæta ímynd lögreglumannanna.
„Flestir lögreglumenn eru tuskulegir og kófsveittir eftir að hafa verið á glæpavettvangi,“ segir Somesh Singh, sem er fatahönnuður hjá Þjóðarhönnunarstofnuninni í Ahmedabad, sem hannaði lögreglubúningana að beiðni ríkisstjórnar Gujarat.
„Þeir eru vissulega ekki þeir aðilar sem flestir vilja mæta, en ef þeir lykta vel og eru ferskir þá eru betri líkur á því að fólk nálgist þá frekar,“ sagði Singh.
Búningarnir verða kynntir lögreglumönnunum í ríkinu, sem eru 300.000 talsins, á næstu mánuðum. Þeir verða saumaðir úr bómull sem búið er að dreypa í ilmefnum. Þá eru endurskinsmerki á þeim auk þess notast er við sérstaka trefjaefnistækni sem gerir það að verkum að búningurinn verður vel sýnilegur í myrkri. Lögreglumennirnir ættu því ekki að fara fram hjá neinum.
Ilmurinn mun ekki fara úr fötunum eftir þvott því lyktarefnin hafa verið greypt í bómullina með sérstökum aðferðum.
Sumir lögreglumenn segjast vera spenntir að fá að prófa nýja búninginn.
„Við erum orðnir dauðleiðir á að klæðast þykkum brúnum bómullarbúningi með breiðu belti og með lögregluskjöld úr plasti, líkt og við höfum gert undanfarna áratugi,“ sagði einn háttsettur lögreglumaður.
„Ef nýi búningurinn vekur á okkur athygli, heldur okkur virkum með góðum ilm og er um leið formlegur, þá erum við allir jákvæðir gagnvart honum.“