Kona nokkur í Hong Kong varð fyrir því óláni að festa tannburstann sinn ofan í kokinu á sér þegar hún rann til heima hjá sér í gærmorgun. Henni tókst þó að hringja í neyðarlínuna til að óska eftir aðstoð án þess að kafna.
Fram kemur í dagblaðinu South China Morning Post að sjúkraflutningamennirnir hafi tekið með sér annan 15 cm langan tannbursta, líkt og þann sem festist í hálsinum á konunni, á sjúkrahúsið.
Tannburstinn var að lokum fjarlægður með skurðaðgerð og segir talsmaður sjúkrahússins að konan sé á batavegi og að ástand hennar sé stöðugt.