Hundrað íbúar í rússnesku þorpi hafa neitað að skipta yfir í ný vegabréf sökum djöfullegra tákna sem þeir segjast sjá í strikamerkingu vegabréfanna. Frá þessu greindi rússneska ríkissjónvarpið í dag.
„Við teljum að þessi nýju vegabréf séu syndsamleg,“ sagði Valentina Yepifanova, sem er eldri borgari í þorpinu Bogolyubovo, í viðtali við sjónvarpið á meðan hún hélt dauðahaldi í gamla vegabréfið sitt sem er orðið afar slitið.
„Þau eru með þessum strikamerkingum og fólk segir að þar megi sjá þrjár sexur. Við erum á móti öllu slíku,“ sagði hún og það má vera ljóst að hún býður ekki syndinni heim í kaffi.
Fram kemur á fréttavef Reuters að sumir þorpsbúanna í Bogolyubovo, sem þýðir „guð elskandi“ á rússnesku, hafa jafnframt hætt að sækja ellilífeyrinn sinn á pósthúsið sökum þess að talið er að númer skepnunnar sé einnig að finna á lífeyrisgreiðsluseðlunum.