Bandarísk kona fullyrðir, að hundurinn Toby hafi bjargað lífi hennar þegar eplabiti stóð í henni. Segir konan, að hundurinn hafi beitt á hana einskonar Heimlich-taki sem nægði til að eplið losnaði og síðan hafi hann sleikt hana í framan svo ekki liði yfir hana.
Debbie Parkhurst, 45 ára, segist hafa verið að borða epli heima hjá sér sl. föstudag þegar eplabiti stóð fastur í hálsi hennar. Hún segist hafa barið á brjóst sér en bitinn losnaði ekki. Þá kom hundurinn Toby til aðstoðar og stökk á bringu konunnar með þeim afleiðingum að bitinn losnaði.
Parkhurst, sem býr í bænum Calvert í Maryland, segist viss um að Toby hafi ekki verið að leika sér heldur hafi verið að beita eigin útfærslu af Heimlich-takinu, sem notað er til að losa stíflur úr öndunarvegi. Takið er nefnt eftir lækninum Henry Heimlich, sem skrifaði fyrst um það árið 1974.
Parkhurst segir að hundurinn hafi greinilega gert sér grein fyrir því að eitthvað var að. „Hann reis upp á afturlappirnar og setti framfæturna á axlirnar á mér. Hann ýtti mér niður og þegar ég lá á bakinu byrjaði hann að hoppa upp og niður á bringunni á mér."
Hún segist enn vera með loppuför á brjóstinu og einnig nokkuð hás en sé óðum að jafna sig. „Þeir segja að hundar skilji eftir fótaför á hjarta manns. Hann skildi eftir loppufar á mínu hjarta, svo mikið er víst," sagði Parkhurst.
Þau Parkhurst og Toby hafa nú fengið fjölda boða um að koma í spjallþætti hjá bandarískum sjónvarpsstöðvum.