Þorpsbúar sem mættu í brúðkaup í austurhluta Indlands á dögunum leist ekki á blikuna þegar brúðguminn mætti ofurölvi á staðinn. Þeir tóku því til sinna ráða og báðu bróður brúðgumans, sem var allsgáður, um að giftast brúðinni sem hann gerði.
Að sögn lögreglu átti brúðguminn að hafa í ölæði sínu verið afar ókurteis við gesti þegar fjölskylda brúðarinnar og aðrir þorpsbúar sögðu honum að hafa sig á brott, en brúðkaupið fór fram í Arwal-héraði Bihar-ríkis.
Yngri bróðir brúðgumans samþykkti hinsvegar að ganga að eiga brúðina ungu þegar fjölskylda hennar bað hann um að kvænast henni.
„Brúðguminn hefur beðist afsökunar á framferði sínu, en hann hefur grátið yfir því að þetta muni spyrjast út og að hann muni aldrei finna neina sem vilji giftast honum,“ sagði talsmaður lögreglunnar.