Tuttugu og fjögurra ára gamall Sikileyingur sem situr í stofufangelsi hafði samband við lögregluna og bað hana þess lengstra orða að setja sig í fangaklefa. Sagðist hann ekki lengur þola að búa við þras og rifrildi móður sinnar og stjúpföður.
Ítalska fréttastofan Ansa segir að maðurinn, Marcello Lazzara, sem á heima í Palermo og var dæmdur í stofufangelsi fyrir sölu á fölsuðum geisladiskum, hafi farið út af heimili sínu til að lögreglan tæki hann fyrir flóttatilraun. Kaus hann það fremur en að dvelja áfram með fjölskyldu sinni.
„Gaman að sjá ykkur,“ sagði Lazzara við lögreglumennina sem komu til að handtaka hann.