Maður fannst látinn í rúmi sínu þar sem rotnandi lík hans hafði legið undanfarin sjö ár, að því er lögreglan í Essen í Þýskalandi greindi frá í síðustu viku.
Í tilkynningu lögreglunnar segir að maðurinn hafi verið 59 ára og atvinnulaus er hann lést, að öllum líkindum 30. nóvember 2000, en þann dag hafði honum borist bréf frá almannatryggingum, er fannst í íbúð hans.
Við hlið líksins fannst sígarettupakki og opið sjónvarpsdagskrárblað, ásamt nokkrum þýskum mörkum, en þau féllu úr gildi þegar evran var tekin upp árið 2002.
Íbúð mannsins er í byggingu sem hýsir skrifstofur og íbúðir, sem margar standa nú auðar.
„Það saknaði hans enginn. Hvarf hans var aldrei tilkynnt,“ sagði lögreglan.