Sumt kemur skemmtilega á óvart annað ekki. Ljóst er að hið síðarnefnda á við það þegar karlmaður á Norðaustur-Spáni fór inn í nýja heimilið í fyrsta sinn og sá eitthvað sem hann átti ekki alveg von á.
Inni í húsinu var að finna vel varðveitt lík fyrrum eiganda íbúðarinnar.
Gordi Giro hafði keypt íbúðina í Rosas á Costa Brava á uppboði eftir að fyrrum eigandi hennar hafði vanrækt að greiða afborganirnar.
Fram kemur á fréttavef BBC að hann hafi sagt við lögregluna að honum hefði brugðið verulega þegar hann fór inn í íbúðina í fyrsta sinn og sá vel varðveitt lík gamla eigandans, þar sem það sat í sófanum.
Svo virðist sem að Maria Luisa Zamora hafi ekki staðið í skilum á greiðslum þar sem hún lést fyrir sex árum, eða árið 2001.
Lögreglan telur að sjávarseltan í loftinu eigi þátt í því að lík Zamora hafi varðveist svo vel sem raun ber vitni.
Dánarstjóri segir að Zamora hafi látist af náttúrulegum orsökum.
Lögreglan rannsakar nú hinsvegar hvers vegna enginn hafi vitjað hennar eða undrast um hana síðastliðin sex ár.
Lögreglan segir að hvorki börnin hennar í Madrid né fyrrverandi eiginmaður hennar hafi tilkynnt um mannshvarf, en konan var 55 ára gömul.
Nágrannar Zamora segja að hún hafi keypt húsið í þeim tilgangi að verja frístundum sínum þar. Þeir töldu jafnframt að hún hefði einfaldlega ákveðið að halda sig fjarri þar sem þeir sáu að garðurinn hennar var í órækt.