Aðgöngumiðar að nektardansstöðum í Noregi hafa hingað til ekki borið virðisaukaskatt þar sem nektardans hefur verið flokkaður sem list, en í gær ákváðu norsk stjórnvöld að 25% virðisaukaskattur skuli leggjast á miðana. Í endurskoðuðum fjárlögum er lagt til að nektardans teljist ekki lengur list heldur verslunarstarfsemi.
Kristin Halvorsen fjármálaráðherra leggur þetta til, en samkvæmt tveim dómsúrskurðum frá í fyrra og hittifyrra telst nektardans vera listgrein. Báðir úrskurðirnir féllu í vil eiganda Diamond Go Go barsins í Ósló, sem hélt því fram að nektardans væri list, líkt og ópera og ballett.