Bandarískur ferðamaður sem spókaði sig kviknakinn í miðborg Nürnberg í fyrrakvöld olli nokkru uppnámi, en þegar lögregla hafði afskipti af honum sagðist hann hafa haldið að í Þýskalandi þætti ekkert athugavert við að vera nakinn á almannafæri.
„Það hefur vissulega verið óvenju heitt hérna að undanförnu, en þetta var nú of langt gengið,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Nürnberg. Í Þýskalandi er heimilt að liggja nakinn í sólbaði í almenningsgörðum, en borgarbúum sem mættu nakta Bandaríkjamanninum á förnum vegi var nóg boðið.
Ferðamaðurinn, sem er 41 árs, var ekki undir áhrifum neinna vímugjafa. Hann hélt á fötunum sínum í poka er lögreglan stöðvaði hann. Var honum gert að klæða sig og greiða 200 evrur í sekt fyrir ósæmilega hegðun.