Ákveðið var að virða hinstu ósk deyjandi manns um að ekki yrði hætt við brúðkaupið eftir að einn brúðkaupsgesta í Króatíu skaut fyrir slysni föður brúðarinnar. Hans hinsta ósk var að brúðkaupið myndi fara fram eins og ekkert hefði í skorist og var það gert.
Lokaundirbúningurinn fyrir stóra daginn var í fullum gangi á heimili brúðarinnar í þorpinu Kesinci í gær þegar bróðir brúðgumans missti óvart skammbyssu sem hann hélt á með þeim afleiðingum að skot hljóp úr byssunni.
Kúlan hæfði háls föður brúðarinnar, sem var 45 ára gamall, þar sem hann stóð í garðinum fyrir framan húsið. Hann lést þegar verið var að flytja hann á sjúkrahús að því er fram kemur í króatískum fjölmiðlum.
Bróðir brúðgumans hafði verið að skjóta upp í loft líkt og hefð er fyrir í brúðkaupsveislum á svæðinu.
Fram kemur að það hafi verið síðasta ósk hins deyjandi manns að ekki yrði hætt við brúðkaupið vegna atburðarins.
Brúðhjónin ákváðu því að virða ósk föður hennar og hjónavígslan átti sér stað undir vægast sagt óvenjulegum aðstæðum.