Í Kaliforníu geta menn leigt sér hund hjá hundaleigu og brátt verður það einnig hægt í New York. Hundaleigan ber nafnið Flexpetz en það var Marlena nokkur Cervantes sem fékk þessa óvenjulegu viðskiptahugmynd og hrinti í framkvæmd.
Hundaleigan er miðuð við þá sem hafa ekki tíma til að sinna hundi eða eiga við ofnæmi að stríða. Dýraverndunarsinnar eru ekki sáttir við að hundar séu leigðir út með þessum hætti. Viðskiptavinir Flexpetz geta valið úr fimm til tíu hundum og geta leigt þá í nokkrar klukkustundir eða nokkra daga, allt eftir þörfum. Cervantes bendir á að í borgum eins og New York sé það oft bannað í fjölbýlishúsum að eiga hund eða þá að menn þurfi að greiða himinhá gjöld fyrir að vera með dýrið í íbúð sinni.
Hver hvolpur hundaleigunnar mun eiga tvær eða þrjár fjölskyldur sem hann býr hjá reglulega, þ.e. þegar hann er ekki í láni.