Yfir einn milljarður manna býr í Kína, en þar eru aðeins um eitt hundrað eftirnöfn notuð, og eru kínversk yfirvöld nú að vega og meta til hvaða aðgerða megi grípa til að draga úr þeim ruglingi sem þessi eftirnafnafátækt óhjákvæmilega veldur, að því er kínverskir fjölmiðlar greina frá í dag.
Samkvæmt kínverskum lögum mega börn einungis taka eftirnafn móður eða föður, en fábreytnin veldur því að nú bera 93 milljónir Kínverja eftirnafnið Wang. Kínverjar eru um það bil 1,3 milljarðar. 85% þeirra deila um 100 eftirnöfnum, samkvæmt könnun sem kínverska Vísindaakademían gerði fyrr á árinu.
Drög að nýrri reglugerð kveða aftur á móti á um að börn geti tekið eftirnöfn beggja foreldra sinna, en sá möguleiki myndi gefa kost á 1,28 milljónum nýrra eftirnafna. Þannig gætu foreldrar með eftirnöfnin Zhou og Zhu gefið barni eftirnafnið Zhou, Zhu, Zhouzhu eða Zhuzhou, að því er Kínverska dagblaðið greinir frá. Samskeytt eftirnöfn munu nú þegar vera orðin vinsæl meðal ungra foreldra, þótt þau séu strangt til tekið ekki heimil að lögum.