Þýskur bankastarfsmaður sem stal peningum frá ríkum viðskiptavinum til að hjálpa þeim fátækari var í gær dæmdur í tveggja ára og tíu mánaða fangelsi. Þessi Hrói höttur nútímans, eins og þýskir fjölmiðlar hafa kallað hann, flutti rúmar tvær milljónir evra á reikninga viðskiptavina sem hann taldi þurfandi.
Maðurinn er 45 ára og var háttsettur starfsmaður Sparkasse Tauberfranken í bænum Mosbach í Suður-Þýskalandi. Í málsskjölum kemur fram að hann hafi sett peningana inn á reikninga viðskiptavina sem ekki áttu möguleika á að fá lán á hefðbundum peningamarkaði.
Talskona réttarins sagði að maðurinn hefði ekki dregið sjálfum sér fé. Hann gaf sig á endanum fram við lögreglu í fyrra eftir að fjölmiðlar höfðu fengið veður af málinu.