Elísabet II Englandsdrottning er komin með eigin tölvupóst samkvæmt frétt breska blaðsins Daily Telegraph. En hún skrifar ekki bréfin sjálf heldur les hún bréfin upp fyrir ritara sinn. Drottningin, sem er 81 árs að aldri, er einnig með farsíma og iPod mini.
Vakti athygli nýverið í garðveislu í Buckingham höll að eftir að hafa spjallað við ritstjóra Vanity Fair, Elizabeth Saltzman, þá á Saltzman að hafa sagt við drottninguna: „verum í sambandi." Á drottningin að hafa sagt: „endilega. Gefðu mér netfangið þitt." Varð ritstjórinn mjög undrandi við orð drottningar og spurði hana hvort hún notaði tölvupóst? Á drottningin að hafa svarað að bragði að það væri rétt en hún skrifaði samt sem áður ekki bréfin sín sjálf.
Daily Telegraph bætir við frásögnina að drottningin sé í reglulegum tölvupóstsamskiptum við barnabörn sín.