Breskir fjölmiðlar segja, að einkennileg meðferð bresks söngvara á texta króatíska þjóðsöngsins í vikunni hafi dregið úr spennu Króatanna fyrir leikinn og það kunni að hafa átt sinn þátt í tapi Englendinga í leiknum.
Söngvarinn Tony Henry fékk það hlutverk að syngja þjóðsöngva Englendinga og Króata á Wembleyleikvanginum á miðvikudagskvöld. Menn tóku eftir því, að þegar Henry söng króatíska þjóðsönginn færðist bros á andlit leikmannanna.
Skýringin er sögð sú, að þegar hann ætlaði að syngja: Mila kuda si planina, sem þýðir: Þú veist mín elskaða hve við elskum fjöllin þín, þá söng hann: Mila kura si planina, sem mun þýða: Elskan mín, limur minn er fjall!
Leiknum lauk með sigri Króata, 3:2, og Englendingar sitja eftir með sárt ennið og komast ekki í úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Króatískirbloggarar hafa hvatt til þess, að Henry verði sæmdur heiðursmerki fyrir aðstoðina á Wembley og þeir vilja einnig, að söngvarinn verði útnefndur opinbert lukkudýr liðsins í úrslitunum.