Taílenskir þingmenn eru ekki sérlega hrifnir af breytingum, sem hershöfðingjar vilja gera á fánalögum landsins. Samkvæmt lagafrumvarpinu eiga ökumenn m.a. að stöðva bíla sína tvisvar á dag til að votta fánanum og þjóðsöngnum virðingu sína.
Til stóð að greiða atkvæði um frumvarpið á fimmtudag en ákveðið var að senda það til nefndar til yfirferðar. Reutersfréttastofan hefur eftir þingmönnum, að alger ringulreið muni ríkja á vegum landsins ef frumvarpið verður samþykkt eins og það er nú.
Samkvæmt frumvarpinu eiga ökumenn að stöðva bíla sína þegar fánar eru dregnir að hún á morgnanna við undirleik þjóðsöngsins og aftur síðdegis þegar þeir eru dregnir niður. Er tilgangurinn sagður, að viðhalda hefð og efla ættjarðarást.
„Það tekur aðeins 1 mínútu og 8 sekúndur að leika þjóðsönginn og því geta ökumenn vel stoppað bíla sína í þágu þjóðarinnar," segir Pricha Rochanasena, fyrrum hershöfðingi og einn flutningsmanna frumvarpsins. „Þeir eru hvort eð er alltaf kyrrir í umferðinni."
Flestir Taílendingar standa kyrrir þegar þjóðsöngurinn er leikinn á lestarstöðvum, almenningsgörðum og skrifstofum klukkan 8 að morgni og 18 síðdegis. Pricha segir að frumvarpið, sem gerir ekki ráð fyrir viðurlögum, geri ökumönnum kleift að sýna ættjarðarást sína einnig.