Raddir þeirra sem efast um ágæti þess að auglýsa ferðaþjónustu í Nýju Mexíkó með ljótum geimverum gerast sífellt háværari, og þykir sumum sem brandarinn sé á kostnað heimamanna.
Auglýsingarnar hafa verið birtar í sjónvarpi undanfarnar vikur. Þær sýna geimverur dást að fögru eyðimerkurlandslagi Nýju Mexíkó, og eiga skilaboðin í auglýsingunum að vera þau, að Nýja Mexíkó sé „besti staður í alheiminum.“
Mörgum hefur þótt auglýsingarnar ögrandi og sniðugar. En þær gerast nú sífellt háværari raddirnar sem telja að auglýsingarnar geti haft allt önnur áhrif en ætlast er til, og hreinlega fælt væntanlega ferðamenn frá.
Brandarinn kunni með öðrum orðum að verða á kostnað heimamanna.
Á fundi ferðamálaráðs Nýju Mexíkó og auglýsingastofunnar M&C Saatchi nýverið voru fulltrúar stofunnar beðnir um að „mýkja aðeins“ geimverurnar.
Einn þeirra sem sæti á í ferðamálaráði sagði: „Það er svo sem allt í lagi að hafa geimverur, en þurfa þær endilega að líta út eins og þær vilji éta úr manni heilann?“