Lögreglan í Ingolstadt í Þýskalandi hefur handtekið sextugan leigusala eftir að upp komst að hann hafði notað myndavélar og hljóðnema til að njósna um leigjendur sína í tíu ár.
Leigusalinn hafði komið fyrir eftirlitsbúnaði í svefnherbergjum, baðherbergjum og fleiri vistarverum í tveim íbúðum sem hann leigði út.
Með þessum hætti fylgdist hann með að minnsta kosti sjö leigjendum og gestum þeirra. Einn núverandi leigjenda mannsins fann hlerunarbúnaðinn í síðustu viku er hann var að gera hreint hjá sér. Þá komst upp um leigusalann.
Hann hefur nú verið ákærður fyrir rof á friðhelgi einkalífsins. Grunur leikur á að kynferðislegar hvatir hafi legið að baki brotum hans.
Talsmaður lögreglunnar í Bæjaralandi sagði: „Til hvers myndi nokkur maður setja upp myndavél í baðherbergi? Til að ganga úr skugga um að það sé þrifið vel?“