Ný rannsókn á atferli svonefndra topi antilópa í Afríku leiðir í ljós, að þar virðast kynin hafa skipt um hlutverk ef miðað er við atferli flestra annarra dýrategunda.
Í grein, sem Jakob Bro-Jorgensen skrifar í tímaritið Current Biology kemur fram, að sum karldýr í antilópuhjörðunum eiga fullt í fangi við að verjast ásókn kvendýra og hafni stundum kvendýrum, sem þeir hafa áður makað sig með. Segir Bro-Jorgensen, að með þessu móti virðist karldýrin spara sæðið til að auka möguleikann á að þeir geti makað sig með fleiri kvendýrum.
Í greininni kemur fram, að ekki sé óalgengt í topihjörðum, að eftirsótt karldýr hnígi niður af þreytu eftir að hafa þjónað kvendýrunum og stundum þurfi karldýr að ráðast á kvendýr, sem verða of ágeng.
Kvendýrin eru frjó í einn dag á ári. Topi antilópurinar koma saman einu sinni á ári í mánuð í senn, til að maka sig. Bro-Jorgensen segir, að hvert kvendýr maki sig að jafnaði með fjórum karldýrum en sum með allt að 12. Hvert dýr maki sig að jafnaði 11 sinnum en eitt par hafi sést maka sig 36 sinnum.
Bro-Jorgensen segir, að hvert kvendýr verði að reyna að tryggja að það festi fang, helst með eftirsóttu karldýri, og einbeiti sér því að mökuninni. Karldýrin reyni hins vegar að dreifa sæði sínu sem víðast.
Fréttavefur BBC hefur eftir Bro-Jorgensen, að þetta atferli virðist ganga þvert gegn því atferli sem venjulega sjáist hjá dýrategundum þar sem karldýr eru ágeng og kvendýr vandfýsin. Atferlið hjá topi antílópunum hafi komið á óvart.