Ofdekruð tík, sem erfði tólf milljónir dollara, sem svarar rúmum 740 milljónum króna, hefur flúið til Flórída og dvelst þar undir nýju nafni eftir að hafa fengið líflátshótanir.
Tíkin nefnist Trouble og var í eigu auðkýfingsins og hótelkeðjueigandans Leonu Helmsley sem lést í ágúst. Hún var flutt úr húsi sínu í New York með einkaþotu undir strangri gæslu eftir að hafa fengið 20 líflátshótanir, að sögn dagblaðsins New York Post. Trouble er sögð eiga marga óvini vegna þess að hún hefur mikið yndi af því að bíta fólk.