Íbúar Wedmore, sem er afskekkt smáþorp á S-Englandi, eru æfir vegna skyndilegrar aukningar á umferð flutningabíla í gegn um þorpið. Þröngar götur þess voru lagðar á dögum hrossa og hestvagna og þungir flutningabílar voru þar sjaldséðir, þar til GPS tæki fóru að vísa þeim stystu leið á áfangastað, í gegn um þorpið.
Samkvæmt frétt á vefsíðu New York Times hefur bæjarstjórn Wedmore gripið til þess ráðs að biðja framleiðendur GPS-korta að fjarlægja leiðina í gegn um þorpið af kortunum.
Flutningabílarnir hafa valdið ýmsum usla sökum stærðar sinnar, brotið hliðarspegla á bílum þorpsbúa og girðingar auk þess sem þeir þurfa regulega að stöðva og snúa við, sem getur verið nær ómögulegt, þegar götur þrengjast skyndilega.
Wedmore er ekki eina þorpið sem hefur þurft að þola slíka innrás, hundruð þorpa eru í Bretlandi þar sem gatnakerfi þola einfaldlega ekki umferð stórra bifreiða. Í þorpinu Barrow Gurney, sem er í grennd við Wedmore hefur sóknarnefndin gengið svo langt að biðja um að þorpið verði þurrkað út af kortum. Um 15.000 bifreiðar nú um þorpið daglega, þar sem GPS tæki benda á veginn um þorpið sem stystu leið að Bristol flugvellinum.
Dirk Snauwaert, talsmaður Tele Atlas, sem framleiðir kort fyrir GPS tæki lætur sér fátt um finnast og segist ekki geta sagt fólki að ekki sé hægt að fara um vegi, meðan í raun sé hægt að aka um þá.
Til stendur að útbúa sérstaka útgáfu fyrir flutningabíla og önnur ökutæki, en það ferli getur tekið einhver ár.
Þangað til bendir Snauwaert bæjaryfirvöldum fara þá leið sem notuð hefur verið síðan á dögum Rómverja, að setja upp skilti.