Ganga stuðlar meira að hlýnun jarðar en bílakstur, að sögn Chris Goodalls, þekkts umhverfisverndarsinna í Bretlandi. Ástæðan er sú að matvælaframleiðslan er mjög orkufrek og það er því betra fyrir umhverfið að fólk hreyfi sig sem minnst og borði minna.
Goodall er höfundur bókar um hvernig fólk getur stuðlað að minni losun gróðurhúsalofttegunda með því að breyta lífsháttum sínum. Hann byggði útreikninga sína á losun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu nautakjöts.
„Þegar venjulegum bíl er ekið þrjár mílur [4,8 kílómetra] fara um 0,9 kílógrömm af koltvísýringi út í andrúmsloftið,“ segir Goodall. „Ef menn ganga sömu vegalengd nota þeir um 180 kaloríur. Við þurfum um 100 grömm af nautakjöti til að fá þessar kaloríur og koltvísýringslosunin vegna kjötsins nemur 3,6 kílóum – er fjórum sinnum meiri en af völdum bíls.“