Breskur maður lokaðist inni á óhituðu almenningssalerni í fjóra daga. David Leggat, 55 ára kennari á eftirlaunum læstist inni á lítið notuðu almenningssalerni í grennd við Aberdeen þegar hurðarhúnarnir duttu af báðu megin á hurðinni er hún skelltist í lás.
Leggat hélt í sér lífi með því að drekka kalt vatn og dýfa fótunum í volgt vatn til að halda á sér hita.
AFP fréttastofan hefur eftir The Aberdeen Evening Express að það hafi verið starfsmaður sem geymir hreinsiáhöldin sín á salerninu sem opnaði fyrir Leggat með skrúfjárni.
Salernið er við keiluklúbb sem Leggat er í, Leggat sér um barinn í klúbbnum. „Ég vissi að ég þurfti að halda mér hlýjum á fótunum,” sagði Leggat sem er ógiftur og barnlaus. Hann sagði að lokum að hann hefði í það minnsta haft aðgang að salerni en bætti því við að hann hefði miklu frekar viljað hafa lokast inni á barnum.