Honum var illa brugðið, Kanadamanninum sem fékk farsímareikning upp á sem svarar fimm milljónum íslenskra króna. Hann hafði notað farsímann sinn sem mótald fyrir tölvuna sína í þeirri trú að allt niðurhal væri innifalið í fasta áskriftargjaldinu, sem var um 600 krónur á mánuði.
Annað kom þó á daginn. Hann hafði hlaðið niður háskerpukvikmyndum og öðrum stórum skjölum, og fyrir það allt saman rukkaði símafyrirtækið, Bell Mobility, aukalega.
Að vísu hefur það lækkað reikning mannsins í sem svarar tæpum 200.000 krónum, en hann ætlar engu að síður að reyna að fá skuldina niðurfellda á þeim forsendum að hann hafi ekki fengið neinar upplýsingar um að rukkað yrði aukalega fyrir niðurhal í tölvuna.