Skólayfirvöld í Norður-Kaliforníu máttu greiða sem svarar tæpum sex milljónum króna í málskostnað fyrir fjölskyldur sem höfðuðu mál á hendur skólanum vegna reglna um klæðaburð nemenda.
Foreldrar barna í skólanum fóru í mál eftir að nemanda var refsað fyrir að mæta í skólann í sokkum sem á voru myndir af Tígra, vini Bangsímons.
Dómssátt náðist í málinu, en talsmaður skólayfirvalda sagði í síðustu viku að milljónirnar sex rynnu til lögmanna fjölskyldnanna. Reyndar þurfa skólayfirvöld líklega einnig að greiða sínum eigin lögmönnum.
Í dómssáttinni segir m.a. að skólanum sé ekki lengur heimilt að krefjast þess að nemendur séu einvörðungu í einlitum sokkum.